Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
17.4.2010 | 13:18
Sjálflægni Björgvins.
Aðeins er farið að kvarnast úr þingmannaliðinu, þó hægt gangi. Fyrrverandi bankamálaráðherra reyndi fyrst hvort ekki dygði að skipta um stól í þingflokksherberginu, afsala sér vöfflum á föstudögum og svo frv. Nú hefur hann ákveðið alveg sjálfur að taka sér frí (launalaust???) frá þingstörfum í nokkra daga, í þeirri von að fyrnist yfir misgjörðir hans á meðan. Ég var ekki beittur neinum þrýstingi... segir hann. Er einhver sem trúir honum? Ég hélt ekki.
Björgvin er einn af þremur ráðherrum í Íslandssögunni sem hefur verið ásakaður um vanrækslu í starfi, af sérstakri rannsóknarnefnd alþingis. Vegna vanrækslu hans meðal annars hefur íslenska þjóðin tapað gríðarlegum peningalegum verðmætum, og því sem enn dýrmætara er, mannorðinu. Til að bæta fyrir þetta telur hann hæfilegt að hann taki sér sumarfrí heldur fyrr en venjulega. Þarna er eitthvað ekki alveg í lagi.
Miðaldra maður hefur svikið rúmar tvöhundruð milljónir út úr samborgurum sínum, hann hefur verið dæmdur í mánaðar gæsluvarðhald meðan málið er rannsakað. Finnst Björgvin það eðlileg meðferð á manni sem ekki hefur ennþá verið dæmdur sekur? Bara meðan málið er rannsakað?
Það blasir við öllu venjulegu fólki að allt sem Björgvin hefur sagt og gert vegna brots síns er yfirklór. Hann virðist ekki með nokkru móti geta greint mun á sannleika og lygi, staðreyndum og hugarburði. Allir vita að hann hefur orðið fyrir stöðugum og vaxandi þrýstingi til að segja sig endanlega frá trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Þrýstingi frá kjósendum, pólitískum andstæðingum, samflokksmönnum, þingmönnum, og ekki síst sínum eigin þingflokki og ráðherrum sem vona heitt og innilega að afsögn Björgvins muni draga athyglina frá þeirra eigin ólykt þannig að þeir sleppi sjálfir.
Það sem Björgvin kýs að gera í þessari stöðu er að halda áfram að segja ósatt, reyna að klóra yfir skítinn og hörfa eins stutt og mögulegt er. Hagsmunir þjóðarinnar skipta hann engu nú frekar en fyrr, hann hugsar einungis um sinn eigin hag. Traust almennings á honum er horfið og með framgöngu sinni staðfestir hann siðleysi sitt og tryggir að aldrei framar mun þjóðin geta treyst honum.
13.4.2010 | 17:42
Steingrímur, hættu að ljúga!
Steingrímur J dregur ekki af sér við að túlka niðurstöður skýrslunnar (sem hann hefur þó ekki lesið ennþá) sér í hag. Löngu áður en að skýrslan kom fyrir hans sjónir var hann búinn að finna út að niðurstöður hennar varðandi hagstjórnina væru þær að þrenn mistök voru gerð fyrst og fremst. Þau voru bygging virkjunar og álvers fyrir austan, skattalækkanir í þenslu, og hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs. Lítum aðeins á þetta.
Bygging álvers í Reyðarfirði er nánast það eina sem gerst hefur jákvætt í byggðaþróun á Íslandi síðustu áratugina. Vissulega sköpuðu þær framkvæmdir þenslu meðan á þeim stóð, en þenslan fyrir austan var þó aldrei nema brot af þeirri þenslu sem geisaði á höfuðborgarsvæðinu. Of margar íbúðir voru byggðar fyrir austan, en hverjir gerðu það? Jú það voru ekki síst verktakar að sunnan með fjármagn frá bönkunum. Og þó að það séu nokkrar íbúðir auðar fyrir austan þá eru þær örfáar miðað við allar þær íbúðir sem standa tómar á höfuðborgarsvæðinu, og voru líka fjármagnaðar af bönkunum. Álverið hefur hins vegar skapað atvinnu fyrir á annað þúsund manns (byggt fyrir erlent fjármagn) og er að moka gjaldeyri inn í landið akkúrat þegar við þurfum á honum að halda.
Það er rétt hjá Steingrími að það er óskynsamlegt að lækka skatta í þenslu. En ég veit ekki betur en að Steingrímur og hans dúddar hafi árum saman hamast við að sýna okkur fram á að skattalækkanir sjálfstæðismanna hafi bara verið sjónhverfing. Í raun hafi skattar verið hækkaðir á þenslutímanum. Verðum við ekki að ætlast til að Steingrímur ákveði sig hvort hann ætlar að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað skatta, eða hækkað skatta? Er hægt að bjóða okkur upp á svona hálfvitagang?
Og rúsínan í pylsuendanum er svo Íbúðalánasjóður. Þar var ákveðið að hækka lánshlutfall í 90%. Steingrímur passar að nefna ekki í þessu sambandi að ÍLS var alltaf með þak á sínum lánum, og enginn fjölmiðlamaður hefur fyrir því að leiðrétta hann eða aðra með þetta. Ég byrjaði að byggja 2006, hús sem áætlað var að kostaði í byggingu 48 milljónir. Ég átti kost á þessu svokallaða 90% láni frá ÍLS, en að hámarki 17 milljónir. Það er 35% lán. Í gögnum seðlabankans kemur fram að á þenslutímanum drógust útlán ÍLS saman. Hvernig fær Steingrímur það út að sá samdráttur hafi verið orsök þeirrar þenslu sem olli síðan hruni? Á sama tíma ruddust bankarnir inn á íbúðalánamarkaðinn og lánuðu hverjum sem hafa vildi 100% lán án þaks. 50, 100 og jafnvel hundruð milljóna. Samt telur Steingrímur ÍLS einan bera ábyrgð á þenslu á húsnæðismarkaði! Þetta er ekki boðlegur málflutningur.
Hvenær ætla stjórnmálamenn á Íslandi að hætta að ljúga? Og hvenær ætla fjölmiðlamenn á Íslandi að fara að gera greinarmun á sannleika og lygi og fara að fara rétt með staðreyndir?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2010 | 07:57
Þorgerður Katrín í leyfi.
Þorgerður Katrín telur að megin ábyrgðin liggi hjá bönkunum, en vissulega hafi stjórnsýslan einnig brugðist í veigamiklum atriðum. Hún hlýtur að vita þetta konan, maðurinn hennar er bankarnir og hún sjálf er stjórnsýslan.
Þorgerður telur að rannsóknarnefndin hafi unnið mjög gott starf, skýrslan sé vönduð og vel unnin. Og þó að hún sé ekki sammála neinu sem fram kemur í skýrslunni þá telur hún að þar sé mjög margt sem megi læra af svo betur takist til í framtíðinni.
Ég vil því leggja til að Þorgerður og hennar ágæti eiginmaður láti það nú eftir sér, svona okkar allra vegna, að taka sér bara verulega langt og gott námsleyfi.
12.4.2010 | 15:07
Björgvin segir af sér!
Ég hélt mér hefði misheyrst. Björgvin G. Sigurðsson hefur sagt af sér!!!
En mér misheyrðist ekki. Björgvin sagði af sér formennsku í þingflokki Samfylkingarinnar. Sagði af sér þingflokksformannsembættinu! Er ekki allt í lagi hjá þessu fólki. Þrír fyrrverandi ráðherrar eru sakaðir um vanrækslu í aðdraganda hrunsins. Tveir eru horfnir úr stjórnmálum, en Björgvin situr enn á þingi, og er ekki að fara neitt.
Þetta er nokkuð sama aðferðin og hann viðhafði þegar hann sagði af sér ráðherradómi korteri áður en að stjórnin hrundi í fyrra. Björgvin hefur því sagt af sér í tvígang og er nú hvít þveginn og skuldlaus við kjósendur. Þessi maður hefur enga hugmynd um hvað það þýðir að bera ábyrgð.
Svei attan.
10.4.2010 | 13:35
Sniðgöngum fyrirtæki glæpamanna!
Vilhjálmur Bjarnason stóð sig vel í útsvari að vanda. Ekki svo að skilja að hann hafi vitað svörin við öllum spurningunum, fjarri því, en hann neitaði að taka við gjafabréfi frá Iceland Express í lokin.
Árum saman hefur svokallað þotulið vaðið fram og til baka, yfir allt og alla á skítugum skónum. Þetta lið er búið að hreinsa öll verðmæti út úr öllum okkar stærstu fyrirtækjum og flytja til Tortólu og slíkra staða. Eftir sitjum við með ónýt fyrirtæki og botnlausar skuldir. Fáir hafa orðið til að spyrna við fæti, enda jafn harðan verið teknir af lífi í fjölmiðlum glæpamannanna.
Vilhjálmur Bjarnason hefur í mörg ár skorið sig úr að þessu leyti. Árum fyrir hrun vakti hann athygli fyrir óþægilegar spurningar á hluthafafundum ýmissa fyrirtækja. Fékk sjaldnast nokkur svör, en var í staðinn úthrópaður sem ruglaður furðufugl. Honum nægði ekki að fá greiddan arð, hann þurfti líka að fá upplýsingar um rekstur fyrirtækjanna. Eins og reksturinn skipti einhverju máli!!!
Glæpaliðið reynir enn að kaupa sér vinsældir með gjafabréfum á réttum stöðum. Vonandi er það þó að taka enda. Okkur vantar fleiri menn eins og Vilhjálm. Menn sem eru tilbúnir til að sniðganga fyrirtæki glæpamanna, jafnvel þó að þeir tapi sjálfir á því í bráð. Því að til lengdar munum við öll græða á því að glæpahyskið verði hreinsað út, og sæmilega vel gert fólk taki við.
Áfram Vilhjálmur.
3.4.2010 | 11:59
Tær snilld.
Í vetur hafa íslenskir kvikmyndaframleiðendur haft hátt. Ástæðan er einkum sú að þeir hafa fengið svo litla peninga frá skattgreiðendum þetta árið að til vandræða horfir. Formaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fer mikinn í rökstuðningi sínum fyrir því hversu gríðarlega hagkvæmt það ku vera að framleiða kvikmyndir á Íslandi. Hagkvæmin er svo mikil að hver einasta króna sem ríkið leggur til kvikmyndagerðar skilar sér að fullu til baka og meira til, segir formaðurinn. Ekki dreg ég það í efa.
Menningarelítan í landinu tilheyrir þeim hópi sem mest hefur talað um óhagkvæmni þess að framleiða á Íslandi eitthvað sem hægt er að fá erlendis fyrir lægra verð. Alveg sérstaklega ef það vitnast að ríkið styðji með einhverjum hætti við framleiðsluna. Það skýtur því skökku við ef það er talið í lagi að framleiða á Íslandi ríkisstyrktar kvikmyndir, því eins og allir vita þá er hægt að fá ómælt magn af kvikmyndum erlendis frá, og fyrir aðeins brot af því sem það kostar að búa þær til hér. Ég ætla ekki að fara í gæðasamanburð, elítan gerir það ekki þegar hún ræðir um aðra framleiðslu.
Einhversstaðar sá ég útreikninga sem sýndu fram á að fyrir hverja eina krónu sem ríkið leggur til landbúnaðar, þá koma þrjár til baka í ríkiskassann. Hvað segja kvikmyndagerðarmenn um svoleiðis arðsemi? Hún er þreföld miðað við kvikmyndagerðina. Þannig að með því að auka verulega framlög til landbúnaðar þá mætti sennilega fjármagna nokkrar kvikmyndir fyrir hagnaðinn í framhaldinu. Er þetta ekki eitthvað sem mætti kalla tæra snilld?
Nú er það svo að í gegn um aldirnar er listsköpun sú atvinnugrein sem hvað verst hefur gengið að standa undir sér fjárhagslega. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða kvikmyndagerð, myndlist, bókmenntir, tónlist eða annað. Sjaldnast hefur listamönnunum tekist að lifa sæmilega af listsköpun sinni. Það hefur þess vegna komið í hlut annarra atvinnugreina að skaffa þeim fjármagn til listsköpunar sinnar. Í það hefur mátt nota hinar óhreinu atvinnugreinar eins og áliðnað, kísilvinnslu, hvalveiðar, orkuvinnslu og hvað eina. Sama hvaðan gott kemur segja listamennirnir þá. Svo eyða þeir hálfri ævinni í að berjast gegn þessum atvinnugreinum, og draga þá ekki af sér við að reikna út hversu óhagkvæmar þær eru.
Nú er við völd sá armur pólitíkurinnar sem á undanförnum árum hefur staðið hvað þéttast við bakið á listamönnum í þeirra baráttu við að ná ríkisstyrkjum út úr vondum hægri stjórnum. Augljóst er að ekki stendur til af hálfu þessarar ríkisstjórnar að sóa fé í að styðja við orkuvinnslu, þungaiðnað né helst nokkurn annan iðnað eða framleiðslu. Ég geri því ráð fyrir að menningarstarfsemin í landinu muni njóta þess fjár sem þannig verður sparað.
31.3.2010 | 20:50
Skammastu þín Jónas.
Jónas Kristjánsson hefur að undanförnu gengið aftur í morgunútvarpi rásar 2 með reglubundnum hætti, auk þess sem hann bloggar af miklum móð. Jónas hafði það að ævistarfi að kasta skít í fólk og fyrirtæki, rak lengi ríkisstyrkt dagblað þar sem hann meðal annars skammaði bændur fyrir að kaupmenn seldu mjólk og kjöt á nokkru hærra verði en títt var erlendis. Dagblaðið seldi svo Jónas gjarnan á fjórföldu verði miðað við alvöru dagblöð erlendis, og taldi sanngjarnt.
Í gærmorgun fullyrti Jónas að í álverinu á Reyðarfirði störfuðu aðeins 200 manns, sem væri nær að fá sér vinnu við eitthvað arðbært eins og ferðaþjónustu, og engin önnur störf hefðu skapast á austurlandi í sambandi við álverið. Starfsmenn RUV létu þetta óátalið, og gerðu ekki tilraun til að leiðrétta Jónas. Hið rétta er að í álveri Alcoa á Reyðarfirði starfa um 480 manns og störf í fyrirtækjum sem eingöngu þjónusta álverið eru fast að 400. Þessir nær 900 menn sem starfa beint við áliðnaðinn í Reyðarfirði skapa síðan mikinn fjölda starfa í allskonar þjónustu. Þetta veit Jónas þó að hann láti svona.
Á bloggi sínu talar Jónas svo niður til forseta sveitarstjórnar Norðurþings fyrir að hafa tjáð þá skoðun sína í fréttum sjónvarps, að þá orku sem til er í Þingeyjarsýslum beri að nota til atvinnuuppbyggingar heima fyrir en ekki flytja suður. Jónas telur þetta vera mikla frekju í Þingeyingnum.
Ef Þingeyingar væru að fara fram á að virkjað yrði á Hellisheiði til atvinnu uppbyggingar á Húsavík þá gæti ég skilið viðhorf Jónasar. Þó mætti reyndar segja, ef miðað er við hve mikil orka er flutt til höfuðborgarinnar utan af landi, þá væri ekki nema sanngjarnt að svona 500 til 1000 megawött væru flutt frá Hellisheiði til Húsavíkur. En Þingeyingar eru nú það hógværir að þeir eru alls ekki að fara fram á neitt slíkt, einungis að fá að nýta heimafyrir þá orku sem þeir eiga og ekki er þegar búið að virkja og flytja burt. Ég get ekki fallist á að það sé frekja.
Ég tel það hins vegar frekju þegar sjálfskipaðir spekingar eins og Jónas Kristjánsson tala í umvöndunartón niður til fólks sem ekki er á nokkurn hátt að abbast upp á hann, einungis að reyna að vinna samfélagi sínu gagn með atvinnu uppbyggingu. En sárast er þó að erfiðasta hindrunin sem við er að eiga í þeirri baráttu skuli vera ríkisstjórn Íslands. Helferðarstjórn Jóhönnu og Steingríms.
28.3.2010 | 11:04
Af jöfnuði jafnaðarmanna.
Við setningu neyðarlaganna í október 2008 voru gerð þau mistök meðal annarra, að þar vantaði ákvæði um frystingu neysluvísitölunnar um óákveðinn tíma. Afleiðingin er sú að síðan hafa átt sér stað gríðarlegir eignatilflutningar, frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga. Eignir fjármagnseigenda tútna á verðtryggðum reikningum þeirra sem aldrei fyrr. Þeir peningar detta ekki af himnum ofan, þeir eru teknir af öllum almenningi í formi verðbóta á skuldir. Nú er svo komið að þeir skuldarar sem ekki eru þegar orðnir gjaldþrota stefna í gjaldþrot með vaxandi hraða.
Öll er þessi eignatilfærsla í boði jafnaðarmana, sem setið hafa við völd frá vordögum 2007. Og þó að stjórnir sjálfstæðis- og framsóknarmanna hafi árin þar á undan slegið öll fyrri met í því að gera þá ríku ríkari, þá verða verk þeirra á þessu sviði hjóm eitt í samanburðinum. Ekkert bendir ennþá til að jafnaðarmenn ætli að breyta stefnu sinni. Öll þeirra ráð hafa hingað til verið óráð, og einungis gert almenningi mögulegt að tapa meira og meira af eignum sínum til fjármagnseigenda. Eitt dæmið er séreignasparnaðurinn, fólki var leyft að taka hann út og nýta hann í að borga verðbætur lánanna. Nú er hann því allur að verða kominn til fjármagnseigenda líka.
Þegar veðsetning eigna fólks er komin í tvö til þrjúhundruð prósent, þá gengur mörgum illa að sjá tilganginn í að halda áfram að borga. Þá koma jafnaðarmenn með það snjallræði að færa veðsetninguna niður í 110%. Þannig tekst að halda greiðsluvilja margra svolítið lengur, en menn eru eftir sem áður fastir í skuldasnörunni og losna ekki úr henni.
Jóhanna Sigurðardóttir jafnaðarmaður númer eitt, stýrir þessum aðgerðum öllum styrkri hendi. Fjöldi manna hefur verið óþreytandi að benda henni á leiðir til að snúa af þessari braut, talsmaður neytenda, Marinó Njálsson og fleiri innan Hagsmunasamtaka heimilanna, Sigmundur Davíð sem Jóhanna mun aldrei taka mark á, og fleiri og fleiri. Meira að segja Benedikt Sigurðarson Samfylkingarmaður hefur aftur og aftur bent á betri kosti. En Jóhanna jafnaðarmaður heyrir hvorki né sér. Setur Benedikt út í horn og skammar Ögmund og félaga í VG.
Hvað getur þetta gengið svona lengi? Hvenær kemur að því að íslenskir jafnaðarmenn sem skilja orðið jafnaðarmaður segi stopp, hingað og ekki lengra, við tökum ekki þátt í þessu lengur? Eru kannski engir raunverulegir jafnaðarmenn lengur til á Íslandi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2010 | 22:41
Nei ráðherra.
Það hefur verið undarlegt að fylgjast með umræðum stjórnmálamanna um hinn svokallaða skuldavanda heimilanna að undanförnu. Velferðarstjórn Jóhönnu hefur ítrekað haldið blaðamannafundi til þess að kynna fjölmörg frábær úrræði sem væntanleg eru til handa skuldugum almenningi. Jóhanna talar um allt að fjörutíu úrræði sem við fáum að velja úr. Skuldugum fjölskyldumanni líður hins vegar eins og lífstíðarfanga, sem getur valið úr fjörutíu klefum til að dvelja í til lífstíðar.
Eitt er það sem engum innan velferðarstjórnarinnar virðist detta í hug að nota við úrlausn vandamálsins, en það er sanngirni. Það virðist engu skipta hversu ósanngjarnar hugmyndir menn fá, allt er talið í lagi í þeim efnum. Ég vil sérstaklega nefna hina svokölluðu 110% leið. Árni Páll kom í langt viðtal í Kastljósi á dögunum til að tala fyrir þessari leið varðandi hin ólöglegu gengistryggðu bílalán. Og ósköp var ráðherrann og jafnaðarmaðurinn aumkunarverður.
Hvaða rök eru fyrir því að færa lánin niður í 110% af markaðsverði veðsins? Önnur en þau að þar er verið að afskrifa það sem er þegar tapað hvort sem er. Tryggja hag lánveitendanna en reyna að láta líta út fyrir að verið sé að gera eitthvað fyrir skuldarana svo þeir missi ekki greiðsluviljann? Ef eitthvað er óeðlilegt við að lán sem tekið var til að greiða fyrir einn bíl er allt í einu orðið tveggja bíla virði, er þá ekki jafn mikið óeðlilegt við að lán sem tekið var til að greiða fyrir hálfan bíl er orðið jafnvirði heils bíls? Hvernig getur ráðherranum dottið í hug að leiðrétta annað lánið um nærri helming en hitt lánið ekki neitt? Hvar er sanngirnin?
Af hverju sjá jafnaðarmenn ekki sanngirni í því að skikka lánastofnanir til að fara að lögum? Leiðrétta ólöglega gengistryggingu lána og færa þau yfir í löglega verðtryggingu miðað við neysluvísitölu? Hvað er ósanngjarnt við það? Menn tala jafnvel um að lánastofnanirnar ráði ekki við þetta, þær verði gjaldþrota. Ég spyr, hvað kemur það málinu við? Hvenær hefur það verið talið eiga að koma í veg fyrir fangelsisdóm barnaníðings að heimili hans gæti orðið gjaldþrota verði hann settur inn?
Velferðarstjórn Jóhönnu hefur nú á annað ár barið hausnum við steininn og neitað að aðhafast neitt sem raunverulega leiðréttir það misrétti sem almenningur hefur orðið fyrir. Og það er eftir vonum að fátt er orðið heillegt í þeim haus.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)