Sjálflægni Björgvins.

Aðeins er farið að kvarnast úr þingmannaliðinu, þó hægt gangi. Fyrrverandi bankamálaráðherra reyndi fyrst hvort ekki dygði að skipta um stól í þingflokksherberginu, afsala sér vöfflum á föstudögum og svo frv. Nú hefur hann ákveðið alveg sjálfur að taka sér frí (launalaust???) frá þingstörfum í nokkra daga, í þeirri von að fyrnist yfir misgjörðir hans á meðan. „Ég var ekki beittur neinum þrýstingi...“ segir hann.  Er einhver sem trúir honum? Ég hélt ekki.

Björgvin er einn af þremur ráðherrum í Íslandssögunni sem hefur verið ásakaður um vanrækslu í starfi, af sérstakri rannsóknarnefnd alþingis. Vegna vanrækslu hans meðal annars hefur íslenska þjóðin tapað gríðarlegum peningalegum verðmætum, og því sem enn dýrmætara er, mannorðinu. Til að bæta fyrir þetta telur hann hæfilegt að hann taki sér sumarfrí heldur fyrr en venjulega. Þarna er eitthvað ekki alveg í lagi.

Miðaldra maður hefur svikið rúmar tvöhundruð milljónir út úr samborgurum sínum, hann hefur verið dæmdur í mánaðar gæsluvarðhald meðan málið er rannsakað. Finnst Björgvin það eðlileg meðferð á manni sem ekki hefur ennþá verið dæmdur sekur? Bara meðan málið er rannsakað?

Það blasir við öllu venjulegu fólki að allt sem Björgvin hefur sagt og gert vegna brots síns er yfirklór. Hann virðist ekki með nokkru móti geta greint mun á sannleika og lygi, staðreyndum og hugarburði. Allir vita að hann hefur orðið fyrir stöðugum og vaxandi þrýstingi til að segja sig endanlega frá trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Þrýstingi frá kjósendum, pólitískum andstæðingum, samflokksmönnum, þingmönnum, og ekki síst sínum eigin þingflokki og ráðherrum sem vona heitt og innilega að afsögn Björgvins muni draga athyglina frá þeirra eigin ólykt þannig að þeir sleppi sjálfir.

Það sem Björgvin kýs að gera í þessari stöðu er að halda áfram að segja ósatt, reyna að klóra yfir skítinn og hörfa eins stutt og mögulegt er. Hagsmunir þjóðarinnar skipta hann engu nú frekar en fyrr, hann hugsar einungis um sinn eigin hag. Traust almennings á honum er horfið og með framgöngu sinni staðfestir hann siðleysi sitt og tryggir að aldrei framar mun þjóðin geta treyst honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband