Fréttamennska nútímans.

Ólafur Sigurðsson fyrrverandi varafréttastjóri Sjónvarpsins skrifar grein í Mogga í vikunni undir yfirskriftinni: „Eiga fjölmiðlar að taka völdin?“ Fjölmiðlarnir hafa orðið fyrir nokkru aðkasti eftir að skýrslan kom út, en þar eru þeir taldir hafa brugðist í aðdraganda hrunsins eins og fleiri. Og eins og fleiri sem ásakaðir voru í skýrslunni þá finnur fréttamaðurinn fyrrverandi ekki nokkra sök hjá fjölmiðlum eða fréttamönnum. Það er eftir vonum, fjölmiðlamenn brutu engin lög frekar en aðrir, eins og það sé ekki hægt að gera neitt rangt án þess að brjóta lög.

Smá misskilnings gæti í fyrirsögn Ólafs þegar hann spyr hvort fjölmiðlar eigi að taka völdin. Fjölmiðlarnir hafa gríðarleg völd, svo mikil að jafnvel er hægt að halda því fram að þeir hafi völdin. Þetta blasir við þegar fylgst er með núverandi ríkisstjórn, og tilburðum hennar til að stjórna. Reglulega eru haldnir blaðamannafundir þar sem kynntar eru óframkvæmdar hugmyndir ráðherranna um aðgerðir í ýmsum málum. Fjölmiðlamenn taka þessar hugmyndir og jarða sumar strax en aðrar fljótlega. Ein og ein hugmynd fær þó jákvæð viðbrögð hjá fjölmiðlum og þá þorir stjórnin að framkvæma hana.

Fréttamenn velja að beina kastljósi að máli, jákvæðu eða neikvæðu eftir skoðun fréttamannsins. Fjallað er um málið klukkustundum saman í útvarpi og sjónvarpi, umfjöllunin fyllir fréttatíma á hálftíma fresti dag eftir dag og fréttaskýringaþætti heilu vikurnar út. Kallaður er til hópur af álitsgjöfum sem eru fréttamanninum þóknanlegir, oftast þeir sömu. Skrúfað er frá þeim og viska þeirra látin flæða yfir okkur í stríðum straumum, gagnrýnislaust. Umfjöllunin er nær alltaf í nafni hlutleysis, þó að hlutleysi komi þar hvergi nærri, því önnur mál fá enga umfjöllun, eru þöguð í hel. Það jaðrar við ýkjur að halda því fram við þessar aðstæður að ríkisstjórnin hafi völdin.

Þessa kranablaðamennsku ver Ólafur og telur vandaða að því er virðist. Og því miður er hann ekki einn um þá skoðun. Hver man ekki eftir forstöðumönnum greiningardeilda bankanna (tilheyrðu markaðsdeildum bankanna) sem fluttu sinn áróður í fréttatímum fjölmiðlanna nær daglega og stundum oft á dag árin fyrir hrun? Hvers konar fréttamennska er það? Ég vildi frekar heyra eina frétt á dag, eða eina frétt á viku, ef ég gæti bara verið viss um að það væri verið að segja mér satt. Ef fjölmiðlarnir eru svona undirmannaðir eins og Ólafur heldur fram, af hverju fækka þeir þá ekki fréttatímum og reyna að vanda sig frekar en að fylla sama tíma og áður með bulli, heldur en engu?

Hvort sem það stendur í lögum og kennslubókum austan hafs og vestan eða ekki, þá hlýtur það að vera sanngjörn krafa okkar að þeir sem taka að sér að flytja fréttir, vandi sig og segi okkur einungis það sem satt er og rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband