Réttarríkið.

Daginn fyrir þjóðhátíðardag okkar Íslendinga gengu dómar í Hæstarétti varðandi gengistryggingu lánasamninga. Fáum kom á óvart að gengistryggingin var fortakslaust dæmd ólögleg, þar sem lögin sem þar um gilda eru óvenjulega skýr og fyrir ólöglærða ekki hægt að sjá að nokkur vafi leiki á að gengistrygging lána er bönnuð.

Mér eins og mörgum öðrum var létt eftir að dómarnir gengu, vegna þess að Hæstiréttur dæmdi þarna eftir lögunum en ekki eftir geðþótta misvitra stjórnmálamanna. Trú mín á að á Íslandi væri þrátt fyrir allt réttarríki þar sem farið væri að lögum jókst til muna og bjartsýni á framtíðina einnig. En Adam var ekki lengi í Paradís eins og þekkt er.

Ríkisstjórnin og öll hennar hirð virtist samdægurs hefja þrotlausa leit að leið til komast mætti framhjá dómum Hæstaréttar til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur, sem sáu fram á að tapa nokkrum hluta af fjármagninu. Enn og aftur gengur öll barátta helferðarstjórnar Jóhönnu út á að verja þá sem eiga, á kostnað þeirra sem ekkert eiga nema skuldir. Dómar Hæstaréttar eru í þeirri baráttu einungis einn þröskuldur enn sem komast þarf yfir. Og lausnin fannst. Jóhanna fékk Má vin sinn til að beina tilmælum til fjármagnseigenda um að þrefalda vextina á umræddum lánum, án samninga við lántakendur. Tilmælum sem byggja ekki á neinum lögum hvað þá réttlæti né sanngirni, eingöngu þessari dæmalausu þörf til að verja fjármagnseigendur. Reyndar gerði hún stutt hlé á símtalinu við Má til að lýsa því yfir í fjölmiðlum að ekkert yrði gert sem rýrt gæti hag skuldara. Það mætti kalla „hlé vegna bilunar“. Síðan bundu þau þetta fastmælum.

Og fjármagnseigendur halda áfram málarekstri sínum. Í dag fer fram málflutningur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli Lýsingar gegn gengislánsskuldara þar sem reynt er að fá dóm um að einhver verðtrygging komi í stað hinnar ólögmætu gengistryggingar. Þreföldun vaxta er sennilega ekki nóg til að svala græðgi þeirra háu herra. Og nú ber svo við að maður hefur takmarkaða trú á að hlutleysi verði viðhaft í dóminum, því miður. Lögmaður Lýsingar er sem fyrr Sigurmar Albertsson eiginmaður Álfheiðar heilbrigðisráðherra, sá hinn sami og tapaði málinu fyrir Hæstarétti fyrir skemmstu. Sigurmar þessi deilir lögmannsstofu með Brynjari nokkrum Níelssyni formanni lögmannafélagsins, en Brynjar hefur einmitt lýst þeirri skoðun sinni að stórhækka verði eða verðtryggja gengistryggðu lánin í kjölfar dóma Hæstaréttar. Héraðsdómarinn sem dæma mun í málinu, Arnfríður Einarsdóttir, mun vera kona Brynjars! Svo vill til að Arnfríður þessi reyndi í allmörg ár að komast í dómaraembætti meðan sjálfstæðismenn fóru með dómsmálaráðuneytið en án árangurs, og á því núverandi stjórn skuld að gjalda. Og samkvæmt því sem Moggi segir þá bauðst Lýsing til að greiða allan málskostnað. Ef það er rétt hjá Mogga að lögmaður stefnda sé þannig launaður af stefnanda, hverra hagsmuna mun hann þá gæta? Málið hefur farið inn í héraðsdóm með undraverðum hraða og er tekið fram fyrir tugi og hundruð mála sem liggja fyrir dómnum. Hvernig stendur á því? hvað liggur dómnum á að taka þetta mál fyrir svo skyndilega og það á þeim árstíma sem dómstólar eru að jafnaði í löngu sumarfríi?

Ég trúi að ónotahrollur hríslist um bakið á fleirum en mér. Eru dómstólarnir ekki sjálfstæðir og hlutlausir? Eru dómarar aldrei vanhæfir???

Eflaust er þetta allt hið mætasta fólk. En var ekki hægt að taka þetta mál fyrir á eðlilegum hraða og var ekki hægt að fá dómara í málið sem ekki er svona ná tengdur lögmanni fjármagnseigenda? Ég bara skil ekki þessi vinnubrögð. Er engum alvara með tali um að byggja þurfi upp traust í samfélaginu á ný? Menn hljóta þó að sjá að það mun ekki gerast meðan fjármagnseigendur geta pantað niðurstöður dómstóla fyrirfram og rekið mál sín í gegn áður en nokkrum gefst ráðrúm til að átta sig eða bregðast við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband