Jafnt vægi atkvæða.

27. nóvember verður kosið til stjórnlagaþings. Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur gefið út tilkynningu þess efnis. Í þeirri tilkynningu og öðrum upplýsingum sem ég get fundið kemur ekkert fram um hvernig þessi kosning eigi að fara fram að öðru leiti en því að þetta verður persónukjör og landið er eitt kjördæmi. Hvergi finn ég hvað hver kjósandi kýs margar persónur til þingsins. Hins vegar er sérstaklega tekið fram að vægi atkvæða verði jafnt.

Svo lengi sem ég man hafa Vatnsmýrarkratar barist fyrir því sem þeir kalla að „jafna vægi atkvæða“ og það er loksins að takast. Nú eiga að fara fram kosningar á Íslandi þar sem vægi atkvæða er jafnt.. Þetta lítur út fyrir að vera réttlætismál, en fleiri hliðar eru á því máli. Stjórnlagaþinginu er ætlað að endurskoða stjórnarskrána okkar, þær grundvallar reglur sem allt okkar samfélag byggir á. Sjálfan grunninn undir samfélagsbyggingunni. Það er ekki lítið verkefni, nei það er stórt og gríðarlega mikilvægt verkefni.  Enda hefur Alþingi á undanförnum áratugum reynst með öllu ófært um að sinna því, að minnsta kosti svo vel sé.

Ef endurskoðun stjórnarskrárinnar á að takast vel, þá er mikilvægt að vanda val þeirra sem að því koma. Best væri sennilega að fá í þetta þrjá valinkunna menn sem hefðu siðvit og þroska til að setja saman góða stjórnarskrá. Þannig var þetta gert í Bandaríkjunum forðum og tókst vel, þeirra stjórnarskrá hefur staðist tímans tönn ótrúlega vel. Hin aðferðin er að velja hóp af fulltrúum þjóðarinnar, og það er sú aðferð sem meiningin er að nota hér. En þá er líka mikilvægt að í þessum hópi eigi öll þjóðin fulltrúa. Líka Súðvíkingar. Og líka Öræfingar.

Með þeirri kosningaaðferð sem á að nota eru hins vegar allar líkur á að af þessum 25 til 31 fulltrúa verði 25 til 31 fulltrúi af höfuðborgarsvæðinu. Það er mögulegt að einn eða tveir detti inn frá Akureyri eða Suðurnesjum, en aðrir eiga nánast engan séns. Á höfuðborgarsvæðinu býr fjöldi verðugra fulltrúa á stjórnlagaþing, en þeir eru bara líka til úti um allt land.

Þegar kosið verður í framtíðinni til þings í draumalandi Vatnsmýrarkrata, ESB, munu þeir þá styðja að notuð verði sama kosningaaðferð? Það er að segja persónukjör og Evrópa eitt kjördæmi. Og hversu margir Vatnsmýrarkratar munu þá ná sæti á þingi ESB? Eða trúa menn því í alvöru að Tyrkir muni kjósa Össur til Evrópuþingsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband