Steingrímur, hættu að ljúga!

Steingrímur J dregur ekki af sér við að túlka niðurstöður skýrslunnar (sem hann hefur þó ekki lesið ennþá) sér í hag. Löngu áður en að skýrslan kom fyrir hans sjónir var hann búinn að finna út að niðurstöður hennar varðandi hagstjórnina væru þær að þrenn mistök voru gerð fyrst og fremst. Þau voru bygging virkjunar og álvers fyrir austan, skattalækkanir í þenslu, og hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs. Lítum aðeins á þetta.

Bygging álvers í Reyðarfirði er nánast það eina sem gerst hefur jákvætt í byggðaþróun á Íslandi síðustu áratugina. Vissulega sköpuðu þær framkvæmdir þenslu meðan á þeim stóð, en þenslan fyrir austan var þó aldrei nema brot af þeirri þenslu sem geisaði á höfuðborgarsvæðinu. Of margar íbúðir voru byggðar fyrir austan, en hverjir gerðu það? Jú það voru ekki síst verktakar að sunnan með fjármagn frá bönkunum. Og þó að það séu nokkrar íbúðir auðar fyrir austan þá eru þær örfáar miðað við allar þær íbúðir sem standa tómar á höfuðborgarsvæðinu, og voru líka fjármagnaðar af bönkunum. Álverið hefur hins vegar skapað atvinnu fyrir á annað þúsund manns (byggt fyrir erlent fjármagn) og er að moka gjaldeyri inn í landið akkúrat þegar við þurfum á honum að halda.

Það er rétt hjá Steingrími að það er óskynsamlegt að lækka skatta í þenslu. En ég veit ekki betur en að Steingrímur og hans dúddar hafi árum saman hamast við að sýna okkur fram á að skattalækkanir sjálfstæðismanna hafi bara verið sjónhverfing. Í raun hafi skattar verið hækkaðir á þenslutímanum. Verðum við ekki að ætlast til að Steingrímur ákveði sig hvort hann ætlar að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað skatta, eða hækkað skatta? Er hægt að bjóða okkur upp á svona hálfvitagang?

Og rúsínan í pylsuendanum er svo Íbúðalánasjóður. Þar var ákveðið að hækka lánshlutfall í 90%. Steingrímur passar að nefna ekki í þessu sambandi að ÍLS var alltaf með þak á sínum lánum, og enginn fjölmiðlamaður hefur fyrir því að leiðrétta hann eða aðra með þetta. Ég byrjaði að byggja 2006, hús sem áætlað var að kostaði í byggingu 48 milljónir. Ég átti kost á þessu svokallaða 90% láni frá ÍLS, en að hámarki 17 milljónir. Það er 35% lán. Í gögnum seðlabankans kemur fram að á þenslutímanum drógust útlán ÍLS saman. Hvernig fær Steingrímur það út að sá samdráttur hafi verið orsök þeirrar þenslu sem olli síðan hruni? Á sama tíma ruddust bankarnir inn á íbúðalánamarkaðinn og lánuðu hverjum sem hafa vildi 100% lán án þaks. 50, 100 og jafnvel hundruð milljóna. Samt telur Steingrímur ÍLS einan bera ábyrgð á þenslu á húsnæðismarkaði! Þetta er ekki boðlegur málflutningur.

Hvenær ætla stjórnmálamenn á Íslandi að hætta að ljúga? Og hvenær ætla fjölmiðlamenn á Íslandi að fara að gera greinarmun á sannleika og lygi og fara að fara rétt með staðreyndir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Já Gísli, það er ekki nóg að  við búum við stjórnmálamen sem ljúga blákalt og trúa hverju sínu orði eins og múslímar kóraninum, heldur þurfum við líka að búa við fjölmiðlafólk sem nennir ekki að leita staðreynda og lýgur með þögninni.  

Hrólfur Þ Hraundal, 13.4.2010 kl. 18:18

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Akkúrat Hrólfur. Takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Gísli Sigurðsson, 13.4.2010 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband