28.3.2010 | 11:04
Af jöfnuði jafnaðarmanna.
Við setningu neyðarlaganna í október 2008 voru gerð þau mistök meðal annarra, að þar vantaði ákvæði um frystingu neysluvísitölunnar um óákveðinn tíma. Afleiðingin er sú að síðan hafa átt sér stað gríðarlegir eignatilflutningar, frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga. Eignir fjármagnseigenda tútna á verðtryggðum reikningum þeirra sem aldrei fyrr. Þeir peningar detta ekki af himnum ofan, þeir eru teknir af öllum almenningi í formi verðbóta á skuldir. Nú er svo komið að þeir skuldarar sem ekki eru þegar orðnir gjaldþrota stefna í gjaldþrot með vaxandi hraða.
Öll er þessi eignatilfærsla í boði jafnaðarmana, sem setið hafa við völd frá vordögum 2007. Og þó að stjórnir sjálfstæðis- og framsóknarmanna hafi árin þar á undan slegið öll fyrri met í því að gera þá ríku ríkari, þá verða verk þeirra á þessu sviði hjóm eitt í samanburðinum. Ekkert bendir ennþá til að jafnaðarmenn ætli að breyta stefnu sinni. Öll þeirra ráð hafa hingað til verið óráð, og einungis gert almenningi mögulegt að tapa meira og meira af eignum sínum til fjármagnseigenda. Eitt dæmið er séreignasparnaðurinn, fólki var leyft að taka hann út og nýta hann í að borga verðbætur lánanna. Nú er hann því allur að verða kominn til fjármagnseigenda líka.
Þegar veðsetning eigna fólks er komin í tvö til þrjúhundruð prósent, þá gengur mörgum illa að sjá tilganginn í að halda áfram að borga. Þá koma jafnaðarmenn með það snjallræði að færa veðsetninguna niður í 110%. Þannig tekst að halda greiðsluvilja margra svolítið lengur, en menn eru eftir sem áður fastir í skuldasnörunni og losna ekki úr henni.
Jóhanna Sigurðardóttir jafnaðarmaður númer eitt, stýrir þessum aðgerðum öllum styrkri hendi. Fjöldi manna hefur verið óþreytandi að benda henni á leiðir til að snúa af þessari braut, talsmaður neytenda, Marinó Njálsson og fleiri innan Hagsmunasamtaka heimilanna, Sigmundur Davíð sem Jóhanna mun aldrei taka mark á, og fleiri og fleiri. Meira að segja Benedikt Sigurðarson Samfylkingarmaður hefur aftur og aftur bent á betri kosti. En Jóhanna jafnaðarmaður heyrir hvorki né sér. Setur Benedikt út í horn og skammar Ögmund og félaga í VG.
Hvað getur þetta gengið svona lengi? Hvenær kemur að því að íslenskir jafnaðarmenn sem skilja orðið jafnaðarmaður segi stopp, hingað og ekki lengra, við tökum ekki þátt í þessu lengur? Eru kannski engir raunverulegir jafnaðarmenn lengur til á Íslandi?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.