25.4.2013 | 16:43
Hæfileg velferð, kæri frambjóðandi?
Þrjár fjölskyldur á dag hafa misst heimili sitt frá hruni. Þrjár fjölskyldur hvern einasta dag frá hruni. Ekki bara virka daga, alla daga, yfir eitt þúsund fjölskyldur ár hvert frá hruni. Margar bornar út á götu, hús og íbúðir boðnar upp. Ein fjölskylda fyrir hádegi, tvær fjölskyldur eftir hádegi. Nær allar áttu það sameiginlegt að ráða ekki lengur við að greiða af stökkbreyttum lánum sínum, sem höfðu hækkað um allt að 55%. Gátu ekki borgað froðuna sem sífellt bættist við lánin, og gerir enn. Þrátt fyrir einbeittan vilja. Þrátt fyrir að hafa vinnu. Þrátt fyrir að hafa mánuðum saman fórnað heilsu og velferð fjölskyldunnar fyrir lánastofnanirnar.
Í fjölskyldunni sem var boðin upp kl. 10 í morgun voru mamma, pabbi, litla barnið, stóra barnið og unglingurinn. Litla barnið vissi ekki hvað var að ske, fann ekki bangsann sinn. Stóra barnið grét, neitaði að yfirgefa herbergið sitt. Mamma og pabbi voru frosin, þau voru hætt að gráta. Unglingurinn var reiður, af því að mamma og pabbi eru aumingjar. Allir halda sínu húsi, nema þau. Þau eiga ekki einu sinni bíl! Aumingjar!
Í fjölskyldunum sem voru boðnar upp kl. 13 og kl. 15 í dag var líka fólk. Örvæntingarfullt fólk. Alveg eins og í fjölskyldunni sem var boðin upp kl. 10 í morgun.
Í fjölskyldunni sem verður boðin upp kl. 10 í fyrra málið er líka fólk, mamma, pabbi, litla barnið, stóra barnið og unglingurinn. Þau eru í losti í kvöld, ráðalaus. Þau gráta um stund, svo rífast þau. Mamma og pabbi ætla að skilja. Mamma segir að þetta sé pabba að kenna, og pabbi segir að þetta sé mömmu að kenna. Unglingurinn ætlar að flytja út í bæ, búa hjá vini sínum. Af því að mamma og pabbi eru aumingjar. Lúserar! Big time!
Kæri frambjóðandi. Já þú, ég er að tala við þig sem nú býður þig fram til setu á Alþingi og vonast eftir ráðherraembætti. Ég er að tala við þig sem býður þig fram til að stjórna landinu, en segir um leið að ekki sé hægt að gera neitt til að leysa skuldavanda fjölskyldna Íslands. Skuldavanda sem er manngerður, búinn til af forverum þínum með röngum ákvörðunum. Ísland hafi ekki efni á því að leysa vandann. Það gæti ógnað stöðugleikanum. Hrægammabankar Íslands hafa skilað vel yfir tvö hundruð þúsund milljóna hagnaði frá endurreisn. Borga stjórnendum sínum fimmtíu til hundrað milljónir á ári í laun, auk bónusa. Já bónusarnir eru komir aftur í bankana.
Mig langar að biðja þig að svara einni spurningu, kæri frambjóðandi sem ætlar ekki að leysa stærsta fjölskylduvanda Íslands. Spurningu sem Ólafur Ísleifsson lagði fyrir þig um daginn en þú hefur ekki séð ástæðu til að svara. Spurningin er þessi:
Hvað finnst þér hæfilegt að margar fjölskyldur verði boðnar upp á hverjum degi þann tíma sem þú verður ráðherra? Muntu sætta þig við þrjár á dag eins og velferðarstjórnin, eða segir þín velferðarvitund að þær þyrftu að vera fleiri? Fjórar kannski? Eða fimm á dag? Tvær fjölskyldur fyrir hádegi og þrjár eftir hádegi. Til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Hvað margar fjölskyldur á dag, kæri frambjóðandi sem ætlar ekki að leysa skuldavandann?
Gísli Sigurðsson, kjósandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.