10.4.2010 | 13:35
Sniðgöngum fyrirtæki glæpamanna!
Vilhjálmur Bjarnason stóð sig vel í útsvari að vanda. Ekki svo að skilja að hann hafi vitað svörin við öllum spurningunum, fjarri því, en hann neitaði að taka við gjafabréfi frá Iceland Express í lokin.
Árum saman hefur svokallað þotulið vaðið fram og til baka, yfir allt og alla á skítugum skónum. Þetta lið er búið að hreinsa öll verðmæti út úr öllum okkar stærstu fyrirtækjum og flytja til Tortólu og slíkra staða. Eftir sitjum við með ónýt fyrirtæki og botnlausar skuldir. Fáir hafa orðið til að spyrna við fæti, enda jafn harðan verið teknir af lífi í fjölmiðlum glæpamannanna.
Vilhjálmur Bjarnason hefur í mörg ár skorið sig úr að þessu leyti. Árum fyrir hrun vakti hann athygli fyrir óþægilegar spurningar á hluthafafundum ýmissa fyrirtækja. Fékk sjaldnast nokkur svör, en var í staðinn úthrópaður sem ruglaður furðufugl. Honum nægði ekki að fá greiddan arð, hann þurfti líka að fá upplýsingar um rekstur fyrirtækjanna. Eins og reksturinn skipti einhverju máli!!!
Glæpaliðið reynir enn að kaupa sér vinsældir með gjafabréfum á réttum stöðum. Vonandi er það þó að taka enda. Okkur vantar fleiri menn eins og Vilhjálm. Menn sem eru tilbúnir til að sniðganga fyrirtæki glæpamanna, jafnvel þó að þeir tapi sjálfir á því í bráð. Því að til lengdar munum við öll græða á því að glæpahyskið verði hreinsað út, og sæmilega vel gert fólk taki við.
Áfram Vilhjálmur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.