3.4.2010 | 11:59
Tær snilld.
Í vetur hafa íslenskir kvikmyndaframleiðendur haft hátt. Ástæðan er einkum sú að þeir hafa fengið svo litla peninga frá skattgreiðendum þetta árið að til vandræða horfir. Formaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fer mikinn í rökstuðningi sínum fyrir því hversu gríðarlega hagkvæmt það ku vera að framleiða kvikmyndir á Íslandi. Hagkvæmin er svo mikil að hver einasta króna sem ríkið leggur til kvikmyndagerðar skilar sér að fullu til baka og meira til, segir formaðurinn. Ekki dreg ég það í efa.
Menningarelítan í landinu tilheyrir þeim hópi sem mest hefur talað um óhagkvæmni þess að framleiða á Íslandi eitthvað sem hægt er að fá erlendis fyrir lægra verð. Alveg sérstaklega ef það vitnast að ríkið styðji með einhverjum hætti við framleiðsluna. Það skýtur því skökku við ef það er talið í lagi að framleiða á Íslandi ríkisstyrktar kvikmyndir, því eins og allir vita þá er hægt að fá ómælt magn af kvikmyndum erlendis frá, og fyrir aðeins brot af því sem það kostar að búa þær til hér. Ég ætla ekki að fara í gæðasamanburð, elítan gerir það ekki þegar hún ræðir um aðra framleiðslu.
Einhversstaðar sá ég útreikninga sem sýndu fram á að fyrir hverja eina krónu sem ríkið leggur til landbúnaðar, þá koma þrjár til baka í ríkiskassann. Hvað segja kvikmyndagerðarmenn um svoleiðis arðsemi? Hún er þreföld miðað við kvikmyndagerðina. Þannig að með því að auka verulega framlög til landbúnaðar þá mætti sennilega fjármagna nokkrar kvikmyndir fyrir hagnaðinn í framhaldinu. Er þetta ekki eitthvað sem mætti kalla tæra snilld?
Nú er það svo að í gegn um aldirnar er listsköpun sú atvinnugrein sem hvað verst hefur gengið að standa undir sér fjárhagslega. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða kvikmyndagerð, myndlist, bókmenntir, tónlist eða annað. Sjaldnast hefur listamönnunum tekist að lifa sæmilega af listsköpun sinni. Það hefur þess vegna komið í hlut annarra atvinnugreina að skaffa þeim fjármagn til listsköpunar sinnar. Í það hefur mátt nota hinar óhreinu atvinnugreinar eins og áliðnað, kísilvinnslu, hvalveiðar, orkuvinnslu og hvað eina. Sama hvaðan gott kemur segja listamennirnir þá. Svo eyða þeir hálfri ævinni í að berjast gegn þessum atvinnugreinum, og draga þá ekki af sér við að reikna út hversu óhagkvæmar þær eru.
Nú er við völd sá armur pólitíkurinnar sem á undanförnum árum hefur staðið hvað þéttast við bakið á listamönnum í þeirra baráttu við að ná ríkisstyrkjum út úr vondum hægri stjórnum. Augljóst er að ekki stendur til af hálfu þessarar ríkisstjórnar að sóa fé í að styðja við orkuvinnslu, þungaiðnað né helst nokkurn annan iðnað eða framleiðslu. Ég geri því ráð fyrir að menningarstarfsemin í landinu muni njóta þess fjár sem þannig verður sparað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vinstristjórnin hlustar ekki á nein rök, en annars yrði þetta frábær röksemdarfærsla.
Kjartan Magnússon, 6.4.2010 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.