Um skattlagningu auðlinda.

Verðmætasköpun útgerðarmanna og bænda er það sem við höfum lifað á frá landnámi, og gerum enn. Síðustu öldina hefur bæst við verðmætasköpun á fleiri sviðum, iðnaðurinn og ekki síst stóriðjan skipta þar mestu máli. Á grunni þessarar verðmætasköpunar getum við síðan byggt heilbrigðiskerfi, menntakerfi, verslunarþjónustu og aðra þjónustu, og síðan stundað ýmsar listgreinar og tómstundir sem auðga lífið.

Nú er ég ekki að meina að þessar þjónustugreinar séu einskis virði eða skapi engin verðmæti. En það er grundvallar munur á grunn verðmætasköpun sem verður við nýtingu náttúruauðlinda til ýmiskonar framleiðslu, og verðmætasköpun þjónustugreinanna. Við gátum lifað á landbúnaði og sjávarútvegi öldum saman án þess að hafa skóla eða sjúkrahús, en við getum aldrei rekið skóla og sjúkrahús án landbúnaðar og sjávarútvegs eða annarrar verðmætasköpunar í grunnframleiðslu. Þessu megum við ekki gleyma. Og það er þetta sem er stóra mein vesturlanda, það er búið að útvista svo stórum hluta verðmætasköpunarinnar til Asíu að verðmætasköpun vesturlanda stendur ekki lengur undir ofvöxnu kerfi þeirra sem ætla að lifa eingöngu á því að reikna vexti og gengishagnað verðbréfa. Þeir sem sitja og reikna upp vexti og gengi eru nefnilega ekki að skapa verðmæti, þeir eru að færa til verðmæti, oftast frá fátækum til ríkra.

Best er að sjálfsögðu að í hverju þjóðfélagi sé jafnvægi milli grunn verðmætasköpunarinnar og þeirra greina sem á henni lifa. Þannig styðja allar greinar hver aðra og við getum öll haft það gott. Menntun sjómanna og útgerðarmanna eykur verðmætasköpun í útgerðinni og þá verður meira til af verðmætum sem hægt er að nota til að bæta skólana, sem aftur eykur verðmætasköpun í útgerðinni og svo frv. Stóra slysið varð þegar menn fóru að trúa kenningum Hannesar Hólmsteins og fleiri slíkra, sem predikuðu að við ættum að hætta að vinna fyrir peningum en láta þess í stað peningana vinna fyrir okkur. Það er nefnilega ekki hægt. Lítill hluti heimsbyggðarinnar getur að vísu lifað á því að láta peningana vinna fyrir sig, en þeir eru ekki að skapa verðmæti heldur að raka til sín verðmætum sem aðrir hafa skapað. Og það er ekki sanngjarnt.

Nú erum við svo heppin að búa í þjóðfélagi sem er með þeim bestu í heiminum. Stéttaskipting var til skamms tíma óveruleg og jafnræði þegnanna mikið. Að ýmsu leiti hefur þetta þó þróast á verri veg síðustu árin eða jafnvel áratugina. Orsökin er skilningsleysi ýmissa háskólaprófessora, stjórnmálamanna, bankamanna og jafnvel útgerðarmanna á þeim grundvallar atriðum sem ég hef rakið hér að framan. Menn héldu í alvöru að Glitnir skapaði svo mikil verðmæti að sanngjarnt væri að Lárus Welding hefði rúmlega 261 milljón á mánuði í laun árið 2007. Hærri laun á mánuði en nokkur venjulegur bóndi getur reiknað með að hafa í laun á heilli starfsævi. Þetta var að sjálfsögðu blekking, algerlega galið. Glæpsamlegt í raun.

Einhverjir útgerðarmenn duttu í það með bankamönnum og hættu að gera út á fisk en fóru þess í stað að gera út á gengi verðbréfa. Að sjálfsögðu fóru þeir á hausinn eins og bankarnir, og það er vel. Það er það sem þeir eiga að gera sem gera tóma vitleysu í sínum rekstri. Vera kann að það umhverfi sem stjórnvöld höfðu skapað þeim hafi verið gallað og það má örugglega bæta. Þá á líka að laga umhverfið og gera það betra, en ekki að hjálpa þessum mönnum til að halda sínum fyrirtækjum með því að afskrifa skuldir þeirra og fjármagna vitleysuna með því að skattleggja sérstaklega þá útgerðarmenn sem ekki fóru á hausinn. Það er algerlega galið. Kórstjóri sem skammar stöðugt þá sem mæta á æfingar fyrir að þeir sem ekki mæta skuli ekki mæta, mun innan skamms ekki hafa neinn kór til að stjórna.

Hlutverk ríkisins er að reka ýmsa samfélags þjónustu, fjármagnaða með sköttum. Það er grundvallar atriði að allir hafi sem jafnastan aðgang að þjónustunni. Það er líka grundvallar atriði að jafnræði sé í skattlagningunni, allir greiði sem jafnast til samneyslunnar. Þannig helst friður í samfélaginu. Það er augljóst að ótækt er að píparar greiði 30% skatt en trésmiðir 60%. Það gengur heldur ekki að ein tegund atvinnurekstrar greiði mikið hærri skatt en aðrar. Slembiskattlagning eins og þetta svokallaða auðlindagjald er glórulaus og getur ekki endað með öðru en stórslysi.

Skattlagning auðlindanýtingar getur verið í lagi ef rétt er að staðið. En þá þarf fyrst að skilgreina hvað er auðlind og hvað ekki, og síðan verður að gæta þess að skattleggja nýtingu allra auðlinda með sama hætti. Fiskur kostar það sama út úr búð á Ísafirði og í Reykjavík, þó svo að búið sé að flytja fiskinn sem seldur er í Reykjavík frá Ísafirði og á kostnað seljandans á Ísafirði. Að hita upp fiskbúðina á Ísafirði kostar hins vegar fjórfalt það sem upphitun fiskbúðarinnar  í Reykjavík kostar.  Engum dettur í hug að ætlast til að Orkuveita Reykjavíkur flytji heitt vatn til Ísafjarðar á sinn kostnað og selji þar á sama verði og í Reykjavík.

Ég get því með engu móti séð að það sé réttlátt að leggja auðlindaskatt á útgerð á Vestfjörðum en ekki á jarðhitanýtingu á Hellisheiði. Hiti í jörð og fiskur í sjó eru hvort tveggja auðlindir í mínum huga og ef skattleggja á nýtingu annarrar, þá verður að skattleggja nýtingu hinnar með sama hætti. Annað er glórulaust. Margir telja að skattleggja beri útgerðarmenn vegna fyrri villu þeirra í meðferð fjár. En mér er mjög til efs að villa útgerðarmanna í þeim efnum hafi á síðustu árum almennt verið meiri en villa stjórnenda og eigenda Orkuveitu Reykjavíkur. Ég verð að segja það. Eða hvað heldur þú?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo stórkostleg speki að það er spurning hvort hún er ekki ætluð til útflutnings?

Værirðu ekki til í að flytja þennan boðskap þjóðum sem hafa lítið af náttúruauðlindum en hafa samt skapað auðug nútímaþjóðfélög, t.d. Danmörk, Sviss, Lúxemburg, Japan, S-Kórea, Taiwan osfrv...osfrv.

Þá kannski sjá þessar þjóðir að þær lifa bara af loftinu en það eina sem þær þurfa er bara íslenska landbúnaðarkerfið og íslenska sauðkindin !!!...og með íslensku sauðkindinni geta þær fengið slatta af íslenskum sauðum á tveimur fótum með....

En bara til að benda þér á það augljósa...

Jarðhiti á Hellisheiði er ekki auðlind í almannaeigu heldur auðlind í einkaeigu Reykvíkinga. Fiskurinn í sjónum er í almannaeigu allra Íslendinga og því eðlilegt að allir íslendingar njóti afrakstursins af henni og hann er innhemtur í formi auðlindagjalda af þeim sem auðlindina nýta, útgerðarmönnum.

Afhverju er eðlilegt að einstæð tveggja barna móðir í blokk í Breiðholti borgi hærri hitaveitugjöld svo útgerðarmaður í 400 fermetra húsi á Ísafirði borgi miklu minna fyrir hitann sinn?

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 21:31

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þakka þér fyrir innlitið Magnús Birgisson og fyrir að gefa þér tíma til að lesa "spekina" mína.

Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki allar aðstæður allra þjóða heims. Svo mikið veit ég þó, að í öllum þeim löndum sem þú telur upp, er og hefur frá örófi alda verið stundaður landbúnaður. Og fiskveiðar í þeim flestum líka. Bara til að benda þér á það augljósa. Sem sagt, allar þjóðir heims lifa á auðlindum náttúrunnar, og bankar eru ekki náttúruauðlind.

Svo kemur þú akkúrat með punktinn sem ég var að reyna að benda á. Hvernig varð óveiddur fiskurinn í sjónum að sameiginlegri eign okkar beggja, og hvernig varð jarðhitinn í Hellisheiðinni einkaeign þín? Ég nefnilega man ekki til þess að ég hafi verið spurður álits þegar ákveðið var að hafa þetta svona. Og ég er heldur ekki viss um að mér finnist það sanngjarnt.

Af hverju er eðlilegt að einstæður tveggja barna faðir á Ísafirði sem stundar sjóinn, borgi meira fyrir að hita blokkaríbúðina sína en bankastjóri í Reykjavík fyrir að hita 400 fermetra húsið sitt? Og þurfi þar á ofan að greiða sérstakan auðlindaskatt til ríkisins bara vegna þess að hann er sjómaður en ekki bankastjóri! Sérstakan skatt ofan á aðra skatta til ríkis sem vill þess utan sem allra minnst af honum vita!! Ekki reka sjúkrahús eða skóla í nálægð við hann! Ekki byggja vegi svo að hann geti komist á það sjúkrahús sem honum er ætlað að nota! Og ekki einu sinni hafa flugvöll í nálægð við sjúkrahúsið eða skólana sem honum er ætlað að nota!

Gísli Sigurðsson, 15.11.2012 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband