Hæfileg velferð, kæri frambjóðandi?

Þrjár fjölskyldur á dag hafa misst heimili sitt frá hruni. Þrjár fjölskyldur hvern einasta dag frá hruni. Ekki bara virka daga, alla daga, yfir eitt þúsund fjölskyldur ár hvert frá hruni. Margar bornar út á götu, hús og íbúðir boðnar upp. Ein fjölskylda fyrir hádegi, tvær fjölskyldur eftir hádegi. Nær allar áttu það sameiginlegt að ráða ekki lengur við að greiða af stökkbreyttum lánum sínum, sem höfðu hækkað um allt að 55%. Gátu ekki borgað froðuna sem sífellt bættist við lánin, og gerir enn. Þrátt fyrir einbeittan vilja. Þrátt fyrir að hafa vinnu. Þrátt fyrir að hafa mánuðum saman fórnað heilsu og velferð fjölskyldunnar fyrir lánastofnanirnar.

Í fjölskyldunni sem var boðin upp kl. 10 í morgun voru mamma, pabbi, litla barnið, stóra barnið og unglingurinn. Litla barnið vissi ekki hvað var að ske, fann ekki bangsann sinn. Stóra barnið grét, neitaði að yfirgefa herbergið sitt. Mamma og pabbi voru frosin, þau voru hætt að gráta. Unglingurinn var reiður, af því að mamma og pabbi eru aumingjar. Allir halda sínu húsi, nema þau. Þau eiga ekki einu sinni bíl! Aumingjar!

Í fjölskyldunum sem voru boðnar upp kl. 13 og kl. 15 í dag var líka fólk. Örvæntingarfullt fólk. Alveg eins og í fjölskyldunni sem var boðin upp kl. 10 í morgun.

Í fjölskyldunni sem verður boðin upp kl. 10 í fyrra málið er líka fólk, mamma, pabbi, litla barnið, stóra barnið og unglingurinn. Þau eru í losti í kvöld, ráðalaus. Þau gráta um stund, svo rífast þau. Mamma og pabbi ætla að skilja. Mamma segir að þetta sé pabba að kenna, og pabbi segir að þetta sé mömmu að kenna. Unglingurinn ætlar að flytja út í bæ, búa hjá vini sínum. Af því að mamma og pabbi eru aumingjar. Lúserar! Big time!

Kæri frambjóðandi. Já þú, ég er að tala við þig sem nú býður þig fram til setu á Alþingi og vonast eftir ráðherraembætti. Ég er að tala við þig sem býður þig fram til að stjórna landinu, en segir um leið að ekki sé hægt að gera neitt til að leysa skuldavanda fjölskyldna Íslands. Skuldavanda sem er manngerður, búinn til af forverum þínum með röngum ákvörðunum. Ísland hafi ekki efni á því að leysa vandann. Það gæti ógnað stöðugleikanum. Hrægammabankar Íslands hafa skilað vel yfir tvö hundruð þúsund milljóna hagnaði frá endurreisn. Borga stjórnendum sínum fimmtíu til hundrað milljónir á ári í laun, auk bónusa. Já bónusarnir eru komir aftur í bankana.

Mig langar að biðja þig að svara einni spurningu, kæri frambjóðandi sem ætlar ekki að leysa stærsta fjölskylduvanda Íslands. Spurningu sem Ólafur Ísleifsson lagði fyrir þig um daginn en þú hefur ekki séð ástæðu til að svara. Spurningin er þessi:

Hvað finnst þér hæfilegt að margar fjölskyldur verði boðnar upp á hverjum degi þann tíma sem þú verður ráðherra? Muntu sætta þig við þrjár á dag eins og velferðarstjórnin, eða segir þín velferðarvitund að þær þyrftu að vera fleiri? Fjórar kannski? Eða fimm á dag? Tvær fjölskyldur fyrir hádegi og þrjár eftir hádegi. Til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Hvað margar fjölskyldur á dag, kæri frambjóðandi sem ætlar ekki að leysa skuldavandann?

Gísli Sigurðsson, kjósandi.


Um skattlagningu auðlinda.

Verðmætasköpun útgerðarmanna og bænda er það sem við höfum lifað á frá landnámi, og gerum enn. Síðustu öldina hefur bæst við verðmætasköpun á fleiri sviðum, iðnaðurinn og ekki síst stóriðjan skipta þar mestu máli. Á grunni þessarar verðmætasköpunar getum við síðan byggt heilbrigðiskerfi, menntakerfi, verslunarþjónustu og aðra þjónustu, og síðan stundað ýmsar listgreinar og tómstundir sem auðga lífið.

Nú er ég ekki að meina að þessar þjónustugreinar séu einskis virði eða skapi engin verðmæti. En það er grundvallar munur á grunn verðmætasköpun sem verður við nýtingu náttúruauðlinda til ýmiskonar framleiðslu, og verðmætasköpun þjónustugreinanna. Við gátum lifað á landbúnaði og sjávarútvegi öldum saman án þess að hafa skóla eða sjúkrahús, en við getum aldrei rekið skóla og sjúkrahús án landbúnaðar og sjávarútvegs eða annarrar verðmætasköpunar í grunnframleiðslu. Þessu megum við ekki gleyma. Og það er þetta sem er stóra mein vesturlanda, það er búið að útvista svo stórum hluta verðmætasköpunarinnar til Asíu að verðmætasköpun vesturlanda stendur ekki lengur undir ofvöxnu kerfi þeirra sem ætla að lifa eingöngu á því að reikna vexti og gengishagnað verðbréfa. Þeir sem sitja og reikna upp vexti og gengi eru nefnilega ekki að skapa verðmæti, þeir eru að færa til verðmæti, oftast frá fátækum til ríkra.

Best er að sjálfsögðu að í hverju þjóðfélagi sé jafnvægi milli grunn verðmætasköpunarinnar og þeirra greina sem á henni lifa. Þannig styðja allar greinar hver aðra og við getum öll haft það gott. Menntun sjómanna og útgerðarmanna eykur verðmætasköpun í útgerðinni og þá verður meira til af verðmætum sem hægt er að nota til að bæta skólana, sem aftur eykur verðmætasköpun í útgerðinni og svo frv. Stóra slysið varð þegar menn fóru að trúa kenningum Hannesar Hólmsteins og fleiri slíkra, sem predikuðu að við ættum að hætta að vinna fyrir peningum en láta þess í stað peningana vinna fyrir okkur. Það er nefnilega ekki hægt. Lítill hluti heimsbyggðarinnar getur að vísu lifað á því að láta peningana vinna fyrir sig, en þeir eru ekki að skapa verðmæti heldur að raka til sín verðmætum sem aðrir hafa skapað. Og það er ekki sanngjarnt.

Nú erum við svo heppin að búa í þjóðfélagi sem er með þeim bestu í heiminum. Stéttaskipting var til skamms tíma óveruleg og jafnræði þegnanna mikið. Að ýmsu leiti hefur þetta þó þróast á verri veg síðustu árin eða jafnvel áratugina. Orsökin er skilningsleysi ýmissa háskólaprófessora, stjórnmálamanna, bankamanna og jafnvel útgerðarmanna á þeim grundvallar atriðum sem ég hef rakið hér að framan. Menn héldu í alvöru að Glitnir skapaði svo mikil verðmæti að sanngjarnt væri að Lárus Welding hefði rúmlega 261 milljón á mánuði í laun árið 2007. Hærri laun á mánuði en nokkur venjulegur bóndi getur reiknað með að hafa í laun á heilli starfsævi. Þetta var að sjálfsögðu blekking, algerlega galið. Glæpsamlegt í raun.

Einhverjir útgerðarmenn duttu í það með bankamönnum og hættu að gera út á fisk en fóru þess í stað að gera út á gengi verðbréfa. Að sjálfsögðu fóru þeir á hausinn eins og bankarnir, og það er vel. Það er það sem þeir eiga að gera sem gera tóma vitleysu í sínum rekstri. Vera kann að það umhverfi sem stjórnvöld höfðu skapað þeim hafi verið gallað og það má örugglega bæta. Þá á líka að laga umhverfið og gera það betra, en ekki að hjálpa þessum mönnum til að halda sínum fyrirtækjum með því að afskrifa skuldir þeirra og fjármagna vitleysuna með því að skattleggja sérstaklega þá útgerðarmenn sem ekki fóru á hausinn. Það er algerlega galið. Kórstjóri sem skammar stöðugt þá sem mæta á æfingar fyrir að þeir sem ekki mæta skuli ekki mæta, mun innan skamms ekki hafa neinn kór til að stjórna.

Hlutverk ríkisins er að reka ýmsa samfélags þjónustu, fjármagnaða með sköttum. Það er grundvallar atriði að allir hafi sem jafnastan aðgang að þjónustunni. Það er líka grundvallar atriði að jafnræði sé í skattlagningunni, allir greiði sem jafnast til samneyslunnar. Þannig helst friður í samfélaginu. Það er augljóst að ótækt er að píparar greiði 30% skatt en trésmiðir 60%. Það gengur heldur ekki að ein tegund atvinnurekstrar greiði mikið hærri skatt en aðrar. Slembiskattlagning eins og þetta svokallaða auðlindagjald er glórulaus og getur ekki endað með öðru en stórslysi.

Skattlagning auðlindanýtingar getur verið í lagi ef rétt er að staðið. En þá þarf fyrst að skilgreina hvað er auðlind og hvað ekki, og síðan verður að gæta þess að skattleggja nýtingu allra auðlinda með sama hætti. Fiskur kostar það sama út úr búð á Ísafirði og í Reykjavík, þó svo að búið sé að flytja fiskinn sem seldur er í Reykjavík frá Ísafirði og á kostnað seljandans á Ísafirði. Að hita upp fiskbúðina á Ísafirði kostar hins vegar fjórfalt það sem upphitun fiskbúðarinnar  í Reykjavík kostar.  Engum dettur í hug að ætlast til að Orkuveita Reykjavíkur flytji heitt vatn til Ísafjarðar á sinn kostnað og selji þar á sama verði og í Reykjavík.

Ég get því með engu móti séð að það sé réttlátt að leggja auðlindaskatt á útgerð á Vestfjörðum en ekki á jarðhitanýtingu á Hellisheiði. Hiti í jörð og fiskur í sjó eru hvort tveggja auðlindir í mínum huga og ef skattleggja á nýtingu annarrar, þá verður að skattleggja nýtingu hinnar með sama hætti. Annað er glórulaust. Margir telja að skattleggja beri útgerðarmenn vegna fyrri villu þeirra í meðferð fjár. En mér er mjög til efs að villa útgerðarmanna í þeim efnum hafi á síðustu árum almennt verið meiri en villa stjórnenda og eigenda Orkuveitu Reykjavíkur. Ég verð að segja það. Eða hvað heldur þú?


Jafnt vægi atkvæða.

27. nóvember verður kosið til stjórnlagaþings. Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur gefið út tilkynningu þess efnis. Í þeirri tilkynningu og öðrum upplýsingum sem ég get fundið kemur ekkert fram um hvernig þessi kosning eigi að fara fram að öðru leiti en því að þetta verður persónukjör og landið er eitt kjördæmi. Hvergi finn ég hvað hver kjósandi kýs margar persónur til þingsins. Hins vegar er sérstaklega tekið fram að vægi atkvæða verði jafnt.

Svo lengi sem ég man hafa Vatnsmýrarkratar barist fyrir því sem þeir kalla að „jafna vægi atkvæða“ og það er loksins að takast. Nú eiga að fara fram kosningar á Íslandi þar sem vægi atkvæða er jafnt.. Þetta lítur út fyrir að vera réttlætismál, en fleiri hliðar eru á því máli. Stjórnlagaþinginu er ætlað að endurskoða stjórnarskrána okkar, þær grundvallar reglur sem allt okkar samfélag byggir á. Sjálfan grunninn undir samfélagsbyggingunni. Það er ekki lítið verkefni, nei það er stórt og gríðarlega mikilvægt verkefni.  Enda hefur Alþingi á undanförnum áratugum reynst með öllu ófært um að sinna því, að minnsta kosti svo vel sé.

Ef endurskoðun stjórnarskrárinnar á að takast vel, þá er mikilvægt að vanda val þeirra sem að því koma. Best væri sennilega að fá í þetta þrjá valinkunna menn sem hefðu siðvit og þroska til að setja saman góða stjórnarskrá. Þannig var þetta gert í Bandaríkjunum forðum og tókst vel, þeirra stjórnarskrá hefur staðist tímans tönn ótrúlega vel. Hin aðferðin er að velja hóp af fulltrúum þjóðarinnar, og það er sú aðferð sem meiningin er að nota hér. En þá er líka mikilvægt að í þessum hópi eigi öll þjóðin fulltrúa. Líka Súðvíkingar. Og líka Öræfingar.

Með þeirri kosningaaðferð sem á að nota eru hins vegar allar líkur á að af þessum 25 til 31 fulltrúa verði 25 til 31 fulltrúi af höfuðborgarsvæðinu. Það er mögulegt að einn eða tveir detti inn frá Akureyri eða Suðurnesjum, en aðrir eiga nánast engan séns. Á höfuðborgarsvæðinu býr fjöldi verðugra fulltrúa á stjórnlagaþing, en þeir eru bara líka til úti um allt land.

Þegar kosið verður í framtíðinni til þings í draumalandi Vatnsmýrarkrata, ESB, munu þeir þá styðja að notuð verði sama kosningaaðferð? Það er að segja persónukjör og Evrópa eitt kjördæmi. Og hversu margir Vatnsmýrarkratar munu þá ná sæti á þingi ESB? Eða trúa menn því í alvöru að Tyrkir muni kjósa Össur til Evrópuþingsins?


Réttarríkið.

Daginn fyrir þjóðhátíðardag okkar Íslendinga gengu dómar í Hæstarétti varðandi gengistryggingu lánasamninga. Fáum kom á óvart að gengistryggingin var fortakslaust dæmd ólögleg, þar sem lögin sem þar um gilda eru óvenjulega skýr og fyrir ólöglærða ekki hægt að sjá að nokkur vafi leiki á að gengistrygging lána er bönnuð.

Mér eins og mörgum öðrum var létt eftir að dómarnir gengu, vegna þess að Hæstiréttur dæmdi þarna eftir lögunum en ekki eftir geðþótta misvitra stjórnmálamanna. Trú mín á að á Íslandi væri þrátt fyrir allt réttarríki þar sem farið væri að lögum jókst til muna og bjartsýni á framtíðina einnig. En Adam var ekki lengi í Paradís eins og þekkt er.

Ríkisstjórnin og öll hennar hirð virtist samdægurs hefja þrotlausa leit að leið til komast mætti framhjá dómum Hæstaréttar til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur, sem sáu fram á að tapa nokkrum hluta af fjármagninu. Enn og aftur gengur öll barátta helferðarstjórnar Jóhönnu út á að verja þá sem eiga, á kostnað þeirra sem ekkert eiga nema skuldir. Dómar Hæstaréttar eru í þeirri baráttu einungis einn þröskuldur enn sem komast þarf yfir. Og lausnin fannst. Jóhanna fékk Má vin sinn til að beina tilmælum til fjármagnseigenda um að þrefalda vextina á umræddum lánum, án samninga við lántakendur. Tilmælum sem byggja ekki á neinum lögum hvað þá réttlæti né sanngirni, eingöngu þessari dæmalausu þörf til að verja fjármagnseigendur. Reyndar gerði hún stutt hlé á símtalinu við Má til að lýsa því yfir í fjölmiðlum að ekkert yrði gert sem rýrt gæti hag skuldara. Það mætti kalla „hlé vegna bilunar“. Síðan bundu þau þetta fastmælum.

Og fjármagnseigendur halda áfram málarekstri sínum. Í dag fer fram málflutningur í héraðsdómi Reykjavíkur í máli Lýsingar gegn gengislánsskuldara þar sem reynt er að fá dóm um að einhver verðtrygging komi í stað hinnar ólögmætu gengistryggingar. Þreföldun vaxta er sennilega ekki nóg til að svala græðgi þeirra háu herra. Og nú ber svo við að maður hefur takmarkaða trú á að hlutleysi verði viðhaft í dóminum, því miður. Lögmaður Lýsingar er sem fyrr Sigurmar Albertsson eiginmaður Álfheiðar heilbrigðisráðherra, sá hinn sami og tapaði málinu fyrir Hæstarétti fyrir skemmstu. Sigurmar þessi deilir lögmannsstofu með Brynjari nokkrum Níelssyni formanni lögmannafélagsins, en Brynjar hefur einmitt lýst þeirri skoðun sinni að stórhækka verði eða verðtryggja gengistryggðu lánin í kjölfar dóma Hæstaréttar. Héraðsdómarinn sem dæma mun í málinu, Arnfríður Einarsdóttir, mun vera kona Brynjars! Svo vill til að Arnfríður þessi reyndi í allmörg ár að komast í dómaraembætti meðan sjálfstæðismenn fóru með dómsmálaráðuneytið en án árangurs, og á því núverandi stjórn skuld að gjalda. Og samkvæmt því sem Moggi segir þá bauðst Lýsing til að greiða allan málskostnað. Ef það er rétt hjá Mogga að lögmaður stefnda sé þannig launaður af stefnanda, hverra hagsmuna mun hann þá gæta? Málið hefur farið inn í héraðsdóm með undraverðum hraða og er tekið fram fyrir tugi og hundruð mála sem liggja fyrir dómnum. Hvernig stendur á því? hvað liggur dómnum á að taka þetta mál fyrir svo skyndilega og það á þeim árstíma sem dómstólar eru að jafnaði í löngu sumarfríi?

Ég trúi að ónotahrollur hríslist um bakið á fleirum en mér. Eru dómstólarnir ekki sjálfstæðir og hlutlausir? Eru dómarar aldrei vanhæfir???

Eflaust er þetta allt hið mætasta fólk. En var ekki hægt að taka þetta mál fyrir á eðlilegum hraða og var ekki hægt að fá dómara í málið sem ekki er svona ná tengdur lögmanni fjármagnseigenda? Ég bara skil ekki þessi vinnubrögð. Er engum alvara með tali um að byggja þurfi upp traust í samfélaginu á ný? Menn hljóta þó að sjá að það mun ekki gerast meðan fjármagnseigendur geta pantað niðurstöður dómstóla fyrirfram og rekið mál sín í gegn áður en nokkrum gefst ráðrúm til að átta sig eða bregðast við.


Af siðareglum og öðru siðleysi.

Í kjölfar siðferðishruns síðustu ára er mikið rætt um nauðsyn þess að setja siðareglur. Siðlausum bankastjórum er ætlað að setja sjálfum sér siðareglur, siðlausir stjórnmálamenn hamast innan sinna siðlausu flokka við að setja flokkunum og sjálfum sér siðareglur. Máls metandi stjórnmálamenn tala jafnvel eins og að þeir trúi því að allt þetta siðaregluverk sem sett verði af siðlausu fólki muni raunverulega siðbæta okkar siðlausa þjóðfélag. En er það nú líklegt?

Í viðtali í Mogga í gær viðrar Skúli Helgason þingmaður hugmyndir sínar um að Alþingi setji almennar reglur um samskipti sín við fyrirtæki sem tengjast hruninu. Það er gott og blessað. Síðan verður auðvitað að setja almennar reglur um samskipti Alþingis við þau fyrirtæki sem ekki tengjast hruninu, og svo almennar reglur um samskipti Alþingis við fyrirtæki sem tengdust hruninu aðeins, en þó ekki mikið, en samt svolítið, en bara smá.

Allir hljóta að sjá að þetta gengur ekki. Auðvitað verður að byrja á að setja almennar reglur um það hvað á að setja almennar reglur um og hvað ekki. Og áður en það er gert verður að setja almennar reglur um það hvernig á að setja almennar reglur. Því að ef það er ekki gert er hætt við að þessar almennu reglur sem settar verða, verði ekki allar almennar heldur gætu sumar orðið sértækar. Og sértækar reglur eiga almennt ekki rétt á sér nema í sérstökum tilfellum, og áður en menn fara að setja sértækar reglur um þau sérstöku tilfelli þá verður að tryggja að til séu almennar reglur um það hvernig setja skuli sértækar reglur. Menn verða að vanda sig, annars gæti allt hrunið aftur.

Það sem menn virðast ekki átta sig á er að siðferði er siðferði vegna þess að um það eru ekki til reglur. Gott siðferði er sú hegðun sem við tileinkum okkur af því að við vitum að hún er rétt þó að engar skráðar reglur séu til þar um. Siðareglur eru þess vegna fyrst og fremst tæki þeirra siðlausu til að fela siðleysi sitt. Það er alveg sama hversu margar siðareglur menn setja, þær munu ekki koma í veg fyrir siðleysi. Því að fram hjá hverri siðareglu eru tvær leiðir, sú hægri og sú vinstri. Því fleiri sem siðareglurnar eru, því fleiri eru leiðirnar framhjá þeim. Eða hefur enginn heyrt þegar hrunvaldar hafa sagt að undanförnu, „við brutum engar reglur“? Og telja þar með að allt hafi verið í lagi með þeirra hegðun.

Dettur einhverjum í hug að það muni koma í veg fyrir misþyrmingar á eiginkonum að setja almennar siðareglur um meðferð á eiginkonum?

Ein siðaregla er þó góð og gild þótt gömul sé og nær yfir allt það sem nú er verið að setja reglur um, og miklu fleira. Hún hljóðar svona: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“


Fréttamennska nútímans.

Ólafur Sigurðsson fyrrverandi varafréttastjóri Sjónvarpsins skrifar grein í Mogga í vikunni undir yfirskriftinni: „Eiga fjölmiðlar að taka völdin?“ Fjölmiðlarnir hafa orðið fyrir nokkru aðkasti eftir að skýrslan kom út, en þar eru þeir taldir hafa brugðist í aðdraganda hrunsins eins og fleiri. Og eins og fleiri sem ásakaðir voru í skýrslunni þá finnur fréttamaðurinn fyrrverandi ekki nokkra sök hjá fjölmiðlum eða fréttamönnum. Það er eftir vonum, fjölmiðlamenn brutu engin lög frekar en aðrir, eins og það sé ekki hægt að gera neitt rangt án þess að brjóta lög.

Smá misskilnings gæti í fyrirsögn Ólafs þegar hann spyr hvort fjölmiðlar eigi að taka völdin. Fjölmiðlarnir hafa gríðarleg völd, svo mikil að jafnvel er hægt að halda því fram að þeir hafi völdin. Þetta blasir við þegar fylgst er með núverandi ríkisstjórn, og tilburðum hennar til að stjórna. Reglulega eru haldnir blaðamannafundir þar sem kynntar eru óframkvæmdar hugmyndir ráðherranna um aðgerðir í ýmsum málum. Fjölmiðlamenn taka þessar hugmyndir og jarða sumar strax en aðrar fljótlega. Ein og ein hugmynd fær þó jákvæð viðbrögð hjá fjölmiðlum og þá þorir stjórnin að framkvæma hana.

Fréttamenn velja að beina kastljósi að máli, jákvæðu eða neikvæðu eftir skoðun fréttamannsins. Fjallað er um málið klukkustundum saman í útvarpi og sjónvarpi, umfjöllunin fyllir fréttatíma á hálftíma fresti dag eftir dag og fréttaskýringaþætti heilu vikurnar út. Kallaður er til hópur af álitsgjöfum sem eru fréttamanninum þóknanlegir, oftast þeir sömu. Skrúfað er frá þeim og viska þeirra látin flæða yfir okkur í stríðum straumum, gagnrýnislaust. Umfjöllunin er nær alltaf í nafni hlutleysis, þó að hlutleysi komi þar hvergi nærri, því önnur mál fá enga umfjöllun, eru þöguð í hel. Það jaðrar við ýkjur að halda því fram við þessar aðstæður að ríkisstjórnin hafi völdin.

Þessa kranablaðamennsku ver Ólafur og telur vandaða að því er virðist. Og því miður er hann ekki einn um þá skoðun. Hver man ekki eftir forstöðumönnum greiningardeilda bankanna (tilheyrðu markaðsdeildum bankanna) sem fluttu sinn áróður í fréttatímum fjölmiðlanna nær daglega og stundum oft á dag árin fyrir hrun? Hvers konar fréttamennska er það? Ég vildi frekar heyra eina frétt á dag, eða eina frétt á viku, ef ég gæti bara verið viss um að það væri verið að segja mér satt. Ef fjölmiðlarnir eru svona undirmannaðir eins og Ólafur heldur fram, af hverju fækka þeir þá ekki fréttatímum og reyna að vanda sig frekar en að fylla sama tíma og áður með bulli, heldur en engu?

Hvort sem það stendur í lögum og kennslubókum austan hafs og vestan eða ekki, þá hlýtur það að vera sanngjörn krafa okkar að þeir sem taka að sér að flytja fréttir, vandi sig og segi okkur einungis það sem satt er og rétt.


Bessastaða fressið.

Forsetinn okkar var inntur eftir því í útlandi hvort gosið í Eyjafjallajökli væri ekki alveg hrein skelfing og skaðræði, hvort nokkurt vit væri fyrir vesæla ferðamenn að ætla að fara að ferðast til Íslands við þessar aðstæður. Forsetinn taldi þetta alveg fráleitt, brá við skjótt og svaraði glaðlega: „No no not to worry, you ain‘t seen nothing yet, just wait þangað til Katla fer af stað, þá fyrst sjáum við alvöru gos“.

Þessu var að sjálfsögðu ætlað að róa skelfda útlendingana sem aldrei hafa staðið frammi fyrir stærri ógn en reiðri eiginkonu. Einhvern vegin virtist þeim þó lítið rórra þó að þeir reyndu að bera sig vel.

Trúbræður forsetans, vinstri kattahjörðin við Austurvöll, bregst hins vegar ókvæða við. Steingrímur fjármála fress segir það "bæði óþarfa og óskaplega óheppilegt að þetta óláns forseta fress sé að skapa einhvern ógnar óróa vegna ókominna Kötlugosa". Og hárin rísa á gervallri kattahjörðinni (allavega þeim hluta sem hefur hár) og nú standa þeir niðri á Alþingi með kryppu og hvæsa á Bessastaða fressið hver sem betur getur. Engin leið er að vita hvernig þessu stríði lýkur en eins og þeir vita sem séð hafa ketti slást þá verða það ekki bara hárflyksur sem fjúka, það mun renna blóð. Og þar sem besti tími aumingja Jóhönnu við kattasmölun er kominn og farinn líka, þá er ekki líklegt að henni takist að hemja vinstri kettina.

Þetta sýnir enn og aftur hversu varasamt það er að láta stjórnmálamenn ganga lausa á erlendri grundu án þess að hafa með sér túlk sem sér um að haga orðum þeirra af skinsamlegu viti.


Æi Ingibjörg, hættu nú.

Ingibjörg Sólrún hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi gert mistök, að hún hafi brugðist. Og hver voru svo mistökin? Hvar brást Ingibjörg?

Jú, mistökin voru þau að hún áttaði sig ekki nógu vel á hvað sjálfstæðis- og framsóknarmenn eru raunverulega vondir. Og af því að hún var ekki nógu fljót að átta sig á þessu, þá brást hún Samfylkingunni. Samfylkingunni takið eftir, ekki þjóðinni.

Mér finnst ræða Ingibjargar ekki stórmannleg, fjarri því. Ef hún hefði nú bara nefnt eitt atriði sem hún sjálf gerði rangt, ekki bara bent á aðra. En hún gerði það ekki, finnur ekkert sem hún hefði sjálf getað gert betur. Gat heldur ekki sleppt því að túlka rannsóknarskýrsluna á þann veg að hún væri með öllu sýkn saka. Sennilega er hún ekki búin að lesa kaflann um það hvernig hún hélt Björgvin frá upplýsingum og ákvörðunum, en hafði þess í stað alla þræði hjá sér. Og lætur svo Björgvin bera ábyrgðina. Eða kaflann um það hvernig hún hundsaði allt sem Davíð sagði um stöðu mála, bara vegna þess að Davíð er vondur og hann ber að hundsa. Þjóðarhagsmunir skipta engu í samanburðinum við þá hagsmuni að koma höggi á Davíð.

Það er ótrúlegt að fylgjast með þessu aumingja fólki. Sjálflægnin og eiginhagsmunasemin á sér ekki takmörk.


mbl.is „Mér finnst ég hafa brugðist“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki benda á Jóhönnu!

„Það er engin eftirspurn eftir „ekki benda á mig leiknum““ segir Jóhanna. Og síðan segir hún: „Auðvitað gat rannsóknarnefndin ekki komist að annarri niðurstöðu, en að eigendur bankanna og viðskiptablokkirnar ættu meginsök á falli bankanna. Alvarlegra er að lög eru leidd að því að stjórnendur þeirra hafi ekki einvörðungu farið á svik við lög og reglur heldur einnig brotið gegn lögum í veigamiklum atriðum“. (Málvillurnar eru annaðhvort eign Jóhönnu eða Mogga)

Þannig að framboðið af „ekki benda á mig leiknum“ er ennþá  meira en nóg.                             

Jóhanna sat í þeirri ríkisstjórn sem stjórnaði landinu síðasta eina og hálfa árið fyrir hrun. Þeirri ríkisstjórn sem hefði getað gert eitthvað, en gerði ekki neitt. Jóhanna var ráðherra á plani, „andlega fjarverandi“ eins og sagt var í gamla daga um þá nemendur sem sváfu í tímum. Hún vissi ekki neitt um neitt, allt kom henni í opna skjöldu 6. október 2008. Og þar sem hún vissi ekki neitt, þá ber hún ekki ábyrgð á neinu. En ber ráðherra ekki skylda til að afla sér upplýsinga og fylgjast með?

Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra Íslands var nýlega dæmd fyrir brot á stjórnsýslulögum í starfi félagsmálaráðherra. Viðbrögð hennar voru þau, að hún tæki ekkert mark á þessum dómi, það hefði bara verið frekja í þessum framsóknarmanni að kæra hana. Málið afgreitt. Eru þetta boðleg viðbrögð ráðherra sem dæmdur er fyrir brot á stjórnsýslulögum?

Jóhanna breytti lögum um seðlabankann og rústaði sjálfstæði hans, til þess að koma höggi á pólitískan andstæðing. Réði síðan Norðmann í stöðu seðlabankastjóra, sem er brot á stjórnarskránni. Þar var ekki farið á svig við lög, þar var stjórnarskráin brotin. Það er nokkuð skondið að síðan er það ein af stærri athugasemdum ESB við stjórnkerfið á Íslandi vegna umsóknar Jóhönnu um aðild, að ósjálfstæði seðlabankans með tilheyrandi pólitískum afskiptum sé ótækt.

Hvernig bregst Jóhanna við þessum afglöpum sínum? Jú, hún bendir á aðra.


Vertu blessuð Þorgerður Katrín.

Og svo er það Þorgerður Katrín. Nú hefur hún líka ákveðið að taka sér sumarfrí með fyrra fallinu í ár. Hún hefur „eftir mikla umhugsun komist að þeirri niðurstöðu að það sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn“. „Það er sárt að kveðja varaformannsembættið“ segir hún. Það er nefnilega það. Sárt fyrir hvern? Ekki er ég sár þó að hún kveðji varaformannsembættið. Ég held bara að enginn sé sár vegna þess, utan hún sjálf.

Ég er hins vegar sár vegna þess að í ráðherratíð Þorgerðar gerði hún ásamt manni sínum tilraun til að hagnast persónulega um milljarða með óheiðarlegum hætti. Með því að taka gríðarleg lán til hlutabréfakaupa í trausti þess að maður hennar gæti misnotað aðstöðu sína í Kaupþingi til að hækka gengi þessara sömu hlutabréfa og selt þau síðan. Og þegar þau sáu að þetta ætlaði ekki að ganga upp þá færðu þau skuldirnar og hlutabréfin, sem voru að verða verðlaus, yfir í einkahlutafélag. Sem lögfróðir menn segja að hafi verið ólöglegt. Héldu hinsvegar óhóflegum arðgreiðslum fyrir sig.

Á sama tíma lét þorgerður hjá líða að gæta hagsmuna þjóðarinnar sem kaus hana til þeirra verka. Þar lét hún allt reka á reiðanum, og reyndi jafnvel að gera þá tortryggilega sem bentu á að það stefndi í óefni. Hún tók meira að segja þátt í ákvörðunum um að Seðlabanki Íslands gerði örvæntingarfulla tilraun til að bjarga banka manns hennar í vonlausri stöðu, með því að lána bankanum það sem eftir var af varaforða þjóðarinnar daginn áður en hann féll.

Nú ætlar Þorgerður að taka sér frí í nokkra daga. Hún hélt ræðu í morgun til þess að tilkynna okkur þetta. Í öllu því sem ég hef heyrt og séð af þessari ræðu, þá nefnir hún hvergi einu orði hagsmuni þjóðarinnar. Einungis sína eigin hagsmuni og Sjálfstæðisflokksins. Og að því er virðist á hún von á að við munum að fríinu loknu grátbiðja hana að koma aftur til að stjórna okkur.

Mann setur hljóðan yfir „siðferðisstyrk“ þessarar miklu konu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband